25 ára karlmaður, sem ákærður er fyrir að stinga Klevis Sula til bana á Austurvelli í byrjun desember, neitaði sök þegar ákæran gegn honum var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Vísir.is greinir frá þessu.
Maðurinn er einnig ákærður fyrir tilraun til manndráps með því að hafa stungið samlanda Sula þrisvar sinnum. Hann neitar einnig sök varðandi þann ákærulið.
Sjá einnig: Móðir Klevis: „Við héldum að Ísland væri mjög öruggt land og að svona myndi ekki gerast hérna“
Klevis Sula og félagi hans voru stungnir á Austurvelli í byrjun desember. Klevis lést af sárum sínum fimm dögum síðar. Klevis sem var aðeins tvítugur hafði dvalið á Íslandi í nokkra mánuði þegar hann lést.
Móðir Klevis fer fram á tíu milljónir króna í miskabætur auk tæplega 900 þúsund króna vegna útlagðs kostnaðar við útför. Faðir Klevis gerir einnig kröfu um tíu milljónir króna í miskabætur. Maðurinn sem var stunginn en lifði árásina af krefst 3,2 milljóna króna í bætur. Maðurinn hafnaði bótakröfunum.