Meðlimir í ÍKSA, Íslensku kvikmynda og sjónvarpsakademíunni, hafa kosið kvikmyndina Hvítur, hvítur dagur, sem framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna árið 2020. Hlaut kvikmyndin afgerandi sigur í rafrænni atkvæðagreiðslu. Þetta kom fram á vef Mbl.
Myndin hefur verið valin inn á fjölda stórra kvikmyndahátíða og hefur nú þegar verið seld til yfir 30 landa víðsvegar um heiminn. Hvítur, hvítur dagur var heimsfrumsýnd á Critics’ Week, hliðardagskrá kvikmyndahátíðarinnar í Cannes í vor og var aðalleikari myndarinnar, Ingvar.E.Sigurðsson, valinn besti leikarinn fyrir leik sinn í myndinni. Ingvar var einnig valinn besti leikarinn á kvikmyndahátíðinni í Transylvaníu fyrir sama hlutverk og var Hvítur, hvítur dagur valin besta mynd kvikmyndahátíðarinnar í Motovun í Króatíu.
Hlynur Pálmason leikstýrði og skrifaði handritið að Hvítum, hvítum degi og var hún framleidd af Antoni Mána Svanssyni fyrir Join Motion Pictures.