Einungis örfáir dagar eru síðan Vísir birti frétt um mögulegar hópuppsagnir hjá Arionbanka og þvertók upplýsingafulltrúi bankans fyrir allt slíkt.
Nú í morgun kemur fram í tilkynningu frá Arionbanka að fólki verði sagt upp. En samkvæmt tilkynningunni samþykkti stjórn bankans, á fundi sínum í morgun, nýtt skipulag bankans og tekur þetta skipulag gildi í dag. Verður um 100 starfsmönnum sagt upp eða um 12% starfsmanna bankans. Vinnumálastofnun hefur verið látin vita af uppsögnunum.
Markmið breytinganna er að styrkja samkeppnishæfni bankans og auka arðsemi eiginfjár segir í tilkynningunni.
„Þetta verður erfiður dagur en við kveðjum í dag hæft og gott samstarfsfólk sem ég efast ekki um að muni láta að sér kveða á nýjum vettvangi,“ er haft eftir bankastjóra Arion banka, Benedikt Gíslasyni. Þetta kom fram á vef Vísis nú í morgun.