Atli Rafn Sigurðsson fer meðal annars fram á 10 milljónir í skaðabætur fyrir brottvikningu úr starfi hjá Leikfélagi Reykjavíkur árið 2017 í kjölfar fjölda ásakana um kynferðislega áreitni og ofbeldi. En aðalmeðferð í máli hans gegn Leikfélagi Reykjavíkur og Kristínu Eysteinsdóttur borgarleikhússtjóra, fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.
Þann 16. desember árið 2017 var hann boðaður á fund hjá Kristínu,leikhússtjóra, þar sem honum var sagt upp störfum.
„Þetta var laugardagur, rétt fyrir jól og ég fæ skilaboð frá Kristínu hvort ég geti komið og hitt hana í hádeginu. Ég segi strax við hana að ég sé á leiðinni í jólamat úti í bæ með stórfjölskyldunni og eigi erfitt með að koma í hádeginu en ég geti komið strax eftir hádegið.“
Á fundinum var honum greint frá alvarlegum ásökunum um áreitni og ofbeldi í hans garð.
„Ég var algjörlega grunlaus um efni fundarins. Það var ekki inni í mínu prógrammi,“ sagði Atli.
Að sögn Kristínar voru fjórir þáverandi starfsmenn Borgarleikhússins sem greindu henni frá ásökunum um ofbeldi og kynferðislega áreitni, af hálfu Atla Rafns Sigurðssonar. Lýstu starfsmennirnir einnig vanlíðan á vinnustað. Hún segir að fjöldi og umfang þessarra ásakana hafi orðið til þess að ákveðið hafi verið að segja honum upp störfum.
DV greindi frá málinu í dag.