Frá og með deginum í dag geta farþegar Icelandair og Air Iceland Connect, kolefnisjafnað flug sitt gegn greiðslu.
Farþegum er boðið að planta ákveðið mörgum trjám til að kolefnisjafna hvert flug en reiknað er út hversu mikið af gróðurhúsalofttegunum losna við flug til áfangastaða félagsins.
Í samstarfi við Klappir Grænar lausnir hafa Icelandair og Air Iceland Connect reiknað út hversu mikið af gróðurhúsalofttegundum losna við flug til allra áfangastaða félaganna. Sem dæmi er kolefnisfótspor einstaklings sem flýgur báðar leiðir frá Reykjavík til Amsterdam í almennu farrými 0,3 tonn og er farþega því boðið að planta þremur trjám fyrir 639 krónur til kolefnisjafna flugið. Í lengra flugi eins og til dæmis til Seattle eru það 0,9 tonn og gera það níu tré fyrir 1.824 krónur.
Mun þessi viðbótargreiðsla farþega renna óskert til til Kolviðar sem er kolefnissjóður sem stofnaður var af Skógaræktarfélagi Íslands og Landvernd. Sá sjóður fjármagnar aðgerðir til bindingar kolefnis með landgræðslu, skógrækt og öðrum leiðum sem draga úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda. Þetta kom fram á vef Kjarnans.