Hjónin Ragnheiður Friðriksdóttir og Hörður Björn Sigurjónsson voru á göngu á Patterson-svæðinu, gömlu æfingasvæði bandaríska hersins, í blíðviðrinu á sunnudag, þegar Ragnheiður steig á eitthvað óvenjulegt.
Voru þau fljót að átta sig á að þarna væri um að ræða handsprengju. Þau hringdu í neyðarlínuna og í framhaldi af því hafði lögreglan samband við sprengjusérfræðinga. Starfsmenn Landhelgisgæslunnar mættu nokkru seinna og eyddu sprengjunni.
Hjónin sögðu sjokkið hafa verið talsvert og þau áttuðu sig ekki á því hversu illa hefði getað farið fyrr en lögreglumaður benti þeim á það.
„Hann sagði að ég hafi verið heppin að hún hafi ekki sprungið þegar ég steig ofan á hana. Ég nötraði og var hálfhrædd á leiðinni heim,“ segir hún.
Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni var sprengjan á þekktu sprengjuæfingasvæði gamla varnarliðsins. Talið er að handsprengjan hafi verið í jörðu og komið upp á yfirborðið í jarðvegslyftingum. Landhelgisgæslan leggur því áherslu á að fólk gæti varúðar á svæðinu. Þetta kom fram á vef Mbl.