Nú um helgina lauk Raindance kvikmyndahátíðinni í 27. skiptið. Um er að ræða eina af virtustu kvikmyndahátíðum heims, en hún er m.a. á lista yfir 50 bestu kvikmyndahátíðir heims.
Nýjung á hátíðinni síðustu 3 ár hefur verið sérstök dagskrá fyrir 360° kvikmyndir og verk innan sýndarveruleika. Kassinn (sem útleggst sem A Box In The Desert á ensku) er íslenskt leikverk í sýndarveruleika sem tók þátt í hátíðinni í ár, og endaði á því að vinna til eftirsóttra verðlauna.
Sýningin vann titilinn Best Interactive Narrative Experience, en sömu verðlaun féllu í skaut stórstjörnunnar Elijah Wood á síðastliðnu ári fyrir verkið Transference. Önnur verk sem voru tilnefnd til verðlaunanna í ár eru INORI, Ray Sparks og The Line.
Sýningin er eftir hóp sem heitir Huldufugl og eru þetta fjórðu verðlaunin sem sýningin hlýtur, en á síðastliðnu ári hefur hún hlotið verðlaun í Stokkhólmi, Berlín og San Diego. Huldufugl samanstendur af leikkonunni og framleiðandanum Nönnu Gunnars og listræna forritaranum Owen Hindley.
“Síðastliðið ár er búið að vera ótrúlegt, en að vinna til verðlauna á Raindance er eiginlega toppurinn. Við höfum fengið að hitta mjög áhrifamikið fólk hér – þekktasti leiklistargagnrýnandi Bretlands, Lyn Gardner, sá sýninguna og við tókum við verðlaununum frá Toby Coffey sem er yfir stafrænu deild þjóðleikhússins í London” segir Nanna.
“Það var líka ótrúlega mikil hvatning að sjá alla fjölbreytnina sem er í boði í þessum geira, það er greinilega mikil gróska í sýndarveruleikagerð og frábært að kvikmyndahátíðir á borð við Raindance taki þessu listformi opnum örmum” bætir Owen við.
Verðlaunin opna án efa dyr fyrir Huldufugl, en þau stefna á fleiri þekktar kvikmyndahátíðir í framtíðinni, s.s. Sundance, Berlinale og Venice Film Festival.
Auk Nönnu og Owens koma leikarinn Ástþór Ágústsson, tónskáldið Íris Thorarins og rithöfundurinn Alexander Dan að gerð verksins.