Póstnúmerið 102 Reykjavík tók formlega gildi í gær. Nýtt póstnúmer afmarkast af Suðurgötu í vestri, Hringbraut í norðri, Bústaðavegi og Öskjuhlíð í austri og strandlínu í suðri.
Eru nú Háskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík. Stúdentagarðar Háskóla Íslands, háskólagarðar HR og Vísindagarðasvæðið, ásamt Reykjavíkurflugvelli innan þessa nýja svæðisnúmers. Einnig er þar að finna Skerjafjörðinn, nýja hverfið við Hlíðarenda og Nauthólsvík.
„Breyting á póstnúmerum snertir almennt ekki líf fólks en í þessu tilviki þegar sú gleðilega breyting verður að 102 Reykjavík verður til þá rammar hið nýja póstnúmer inn ákveðna þróunar og breytingu sem er að verða á borginni. Stundum hefur verið sagt að mesta uppbyggingin í borginni sé í 101. Það er villandi því það eru ný hverfi á Hlíðarenda, hundruð stúdentaíbúða í kringum háskólana sem eru stærstu uppbyggingarsvæðin. Mesta uppbygging landsins er því í 102 Reykjavík,“ segir Dagur.B.Eggertsson borgarstjóri.
Einhverjir íbúar innan nýja 102 svæðisins lýstu yfir áhyggjum af því að fasteignaverð gæti lækkað í verði við breytinguna.
„Það er þekkt að staðsetning hefur áhrif á fasteignaverð, en póstnúmer varla. Við þekkjum það erlendis frá að þar er stundum talað um gamla bæinn og nýja bæinn, um misgamla hluta miðborganna. 102 er okkar nýi bær og ég heyri ekki betur en að íbúðir og fasteignir séu að seljast vel þar, þannig að 102 fer mjög vel af stað í öllum skilningi,“ sagði Dagur.
Þetta kom fram á vef Fréttablaðsins.
102 Reykjavik – nýjasta póstnúmer borgarinnar – tók gildi í gær, 1. október. Skemmtilegt mál og rammar inn jákvæða þróun borgarinnar. Strax á öðrum degi er 102 stærsta uppbyggingarsvæði borgarinnar í íbúðahúsnæði! pic.twitter.com/D6gFRVLKOY
— Dagur B. Eggertsson (@Dagurb) October 2, 2019