Kvikmyndatónskáldið og sellóleikarinn Hildur Guðnadóttir hefur nú skrifað undir plötusamning við þýska útgáfurisann Deutsche Grammophon.
Hildur hlaut Emmy-verðlaun fyrir tónlist sína í þáttunum Chernobyl og hlýtur nú mikið lof fyrir tónlist sína í kvikmyndinni Joker, þar sem leikarinn Joaquin Phoenix fer með aðalhlutverk.
Í tilkynningu frá útgáfufyrirtækinu Deutsche Grammophon segir að mikill fengur sé í Hildi fyrir útgáfuna og að hún sé full af sköpunarkrafti og hugmyndaauðgi. Tónlist hennar sé persónuleg og snerti strengi innra með fólki.
„Allir sem hafa hlýtt á kvikmyndatónlistina við Chernobyl eða fyrri verk hennar heyra hversu byltingarkennd tónlistin er. Við bjóðum hana velkomna.“ segir Clemens Trautman forstjóri útgáfunnar.
Þetta kom fram á vef Rúv.