Ísland hefur verið sett á lista alþjóðlegu samtakana Financial Action Task Force (FATF) um ósamvinnuþýð ríki, svokallaðan gráan lista, vegna ónógra varna gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Ísland bætist á listann ásamt Simbabve og Mongólíu. Þetta kom fram á vef Kjarnans.
Önnur lönd á listanum eru meðal annars Kambódía, Hemen, Sýrland og Panama.
Bandaríkin og Bretland ýttu á að Ísland yrði sett á listann, var það meðal annars til að skapa fordæmi fyrir því að hart sé tekið á slökum vörnum gagnvart peningaþvætti. Evrópusambandið og flest aðildarríki þess studdu hins vegar að Ísland fari ekki á listann.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í samtali við RUV í gær að það yrðu gríðarleg vonbrigði ef Ísland myndi lenda á listanum. „Það ætti í raun og veru aðeins að vera eitt atriði að vera útistandandi af öllum þeim atriðum sem voru nefnd í upphaflegu skýrslunni um þessi 51 atriði þannig það eru ákveðin vonbrigði. Svo er ákveðin óvissa sem virðist fylgja því, við höfum dæmi um að þessi listi hefur lítil áhrif en að sjálfsögðu er mér annt um okkar orðspor og ég tel að þarna sé verið að bregðast ansi hart við þeirri stöðu sem raunverulega er uppi.“
Óljóst er hvaða áhrif þetta mun hafa á Ísland. Hefur verið sagt að færi Ísland á listann myndu áhrifin birtast fyrst og fremst í því að erfitt gæti orðið fyrir fyrirtæki að stofna til nýrra viðskiptasambanda erlendis – fyrir utan augljósa orðsporshnekki.