Birna Ósk Hansdóttir hefur verið ráðin nýr framkvæmdastjóri 101 Productions og mun hefja störf hjá fyrirtækinu þann 1. nóvember. Birna starfaði sem framleiðslustjóri RÚV frá árinu 2012 en einnig hefur hún starfað sem sjálfstætt starfandi dagskrárgerðarmaður og framleiðandi, sem fréttamaður og við almannatengsl svo eitthvað sé nefnt.
Birna hefur MPA próf frá Háskóla Íslands ásamt BA gráðu í stjórnmála- og fjölmiðlafræði. Maki Birnu er Einar Örn Jónsson íþróttafréttamaður og eiga þau tvö börn. 101 Productions er ungt en vaxandi fyrirtæki sem fæst við spennandi verkefni á sviði fjölmiðlunar og framleiðslu. Undir þeirra hatti er Útvarp 101 sem fagnar eins árs afmæli föstudaginn 1. nóvember.
Nýjasta verkefni fyrirtækisins er farsímaþjónustan 101 Sambandið sem var sett á laggirnar í ágúst. Framundan hjá fyrirtækinu eru nýjar áskoranir í rekstri tengdar vexti í fjölmiðlahlutanum, nýtilkominni fjarskiptaþjónustu og aukinni framleiðslu efnis fyrir sjónvarp og vef.
Í tilkynningu frá stjórn félagsins segir að aðstandendur þess séu ánægðir að hafa náð saman með Birnu Ósk um að leiða fyrirtækið á spennandi tímum. Tími Birnu hjá Ríkisútvarpinu muni vafalaust nýtast henni vel í þeim fjölmörgu framleiðsluverkefnum sem fyrirtækinu nú býðst. Ennfremur kemur fram að Birna taki við góðu búi Valdísar Þorkelsdóttur sem nú haldi í barneignarleyfi en hún á von á sínu öðru barni nú í lok árs og ítrekar stjórn þakkir sínar til hennar fyrir farsæl störf í þágu félagsins