Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, lagði til á fundi borgarráðs í dag að frídögum barna í Reykjavík yrði fækkað um allt að tíu árlega. Þannig væri hægt að mæta bæði þörfum fjölskyldunnar og atvinnulífsins.
„Frídagar grunnskólabarna í Reykjavík eru samanlagt 73 árlega, að undanskildum lögbundnum frídögum. Systkini á tveimur skólastigum eiga samanlagt 79 frídaga árlega. Foreldrar á almennum vinnumarkaði eiga flestir 24 frídaga árlega. Það þarf ekki langskólagenginn stærðfræðing til að sjá þær áskoranir sem mæta fjölskyldufólki við skipulag hversdagsins. Atvinnurekendur lenda ekki síður í vanda vegna þeirra ráðstafana sem gera þarf vegna fjarveru foreldra frá vinnu,“ segir Hildur í færslu á facebook síðu sinni.
Í færslunni segir hún að tillögurnar miði ekki síður að því að tryggja jafnrétti kynjanna, en að reynsla sýni að konur taka enn aukna ábyrgð á uppeldi barna og séu líklegri til að hverfa frá vinnu til að sinna börnum á frídögum þeirra.
Færslu Hildar er hægt að sjá í heild sinni hér að neðan.
Þetta kom fram á vef Fréttablaðsins.