Framkvæmdastjóri Senu Live segir lélegt af forráðamönnum nýrrar tónlistarhátíðar að reyna að nýta sér vörumerki Airwaves til að selja bjór og mat. Þeir sem eru í forsvari fyrir Airwhales segjast hins vegar vilja tryggja aðgang fólksins að frábærri tónlist og fanga þá stemningu sem fylgdi Off venue-viðburðum Airwaves.
Hefur talsverður þungi farið í það að rétta hátíðina af fjárhagslega, eftir mikinn taprekstur undanfarin ár.
„Þetta er allt í rétta átt. Við sennilega töpum smá peningum, en miklu minna en í fyrra. Við höfum trú á því að á næsta ári náum við að koma þessu á núllið. Að við séum að nálgast einhverja formúlu sem virkar og allir verði ánægðir með hátíðina,“ segir Ísleifur Þórhallsson, framkvæmdastjóri Senu Live, sem hefur undafarin ár séð um rekstur Airwaves.
Sena Live fékk einkaleyfi á vörumerkinu Airwaves sem og Off venue. Markmiðið var að skera upp herör gegn ókeypis utan dagskrár viðburðum eða Off venue, sem drógu úr sölu á armböndum. Hafa því þeir rekstraraðilar sem vilja vera hluti af Airwaves þurft að greiða Senu Live gjald fyrir það. Einnig hefur listamönnum sem koma fram verið fækkað, en það á að auka líkur á því að betur takist að koma íslenskri tónlist á framfæri erlendis. Munu fleiri hljómsveitir og listamenn þar af leiðandi fá tækifæri til að koma tvisvar fram á meðan hátíðinni stendur.
Einhverjir hafa gagnrýnt þessar breytingar og sést það eflaust best í hátíðinni Airwhales sem haldin er sömu daga og Airwaves, á hótelinu Hlemmi Square. Yfirlýst markmið Airwhales er að fanga aftur þessa Off venue stemningu.
„Ef fólkið, sem stofnaði hátíðina Airwhales uppi á Hlemmi, telur sig vera að verja einhvern góðan málstað, þá tel ég það á mjög miklum misskilningi byggt. Airwaves er rekin af hugsjón og frumtilgangurinn er að koma íslenskum tónlistarmönnum á framfæri. Við erum líka í rekstri, þetta er vara sem við erum að selja. Það er ekki hægt að stilla sambærilegri vöru sem kostar ekkert inn á við hlið okkar vöru. Mér finnst frekar ljótt og leiðinlegt að stofna einhverja hátíð á sama tíma og okkar hátíð er og búa til eitthvað nafn sem hljómar næstum því nákvæmlega eins og okkar nafn,“ segir Ísleifur.
„Ég vil bara lýsa því yfir að mér finnst þetta lélegt. Þeir eru að fara gegn hátíðinni og þar með íslenskum listamönnum. Þeir láta þetta hljóma eins verið sé að berjast fyrir góðum málstað, það er bara misskilningur. Það er ekki góður málstaður að berjast fyrir því að fara í það Off venue fyrirkomulag sem var. Það er ekki hægt að byggja hátíð á heimsmælikvarða sem kostar ekkert inn á. Það koma engar tekjur ef það er ekki hægt að selja inn á hana. Þeir eru þar með að fara gegn hátíðinni og íslenskum listamönnum.“