Stofnendur WAB air munu væntanlega kynna nýtt nafn flugfélagsins og fara yfir framtíðaráætlanir þess í dag. En boðað hefur verið til blaðamannafundar í Norðurljósasal Perlunnar kl 10.30.
WAB air er flugfélag sem tveir fyrrverandi stjórnendur hjá WOW air ásamt hópi fjárfesta hafa unnið að því að koma í loftið frá því síðla í vor. Þeir sem staðið hafa að stofnun flugfélagsins hafa ekkert tjáð sig um stöðu mála né fjármögnun frá því að ferlið hófst og því viðbúið að á fundinum í dag verði sýnt í fyrsta sinn á spilin.
Í júní var greint frá því í Fréttablaðinu að WAB air, sem stendur fyrir „We Are Back“, væri meðal annars að undirlagi Avianta Capital, írsks fjárfestingarsjóðar, sem hefði skuldbundið sig til að leggja félaginu til 40 milljónir dala eða jafnvirði rúmra fimm milljarða króna í nýtt hlutafé. Gert er ráð fyrir því að flugfélagið muni fljúga til fjórtán áfangastaða í Evrópu og Bandaríkjunum og að ein milljón farþega ferðist með flugfélaginu. Þá var stefnt að því að fimm hundruð starfsmenn yrðu ráðnir til flugfélagsins á tólf mánuðum. Jafnframt var gert ráð fyrir því að velta félagsins myndi nema tuttugu milljörðum króna á næsta ári.
Þetta kom fram á Kjarnanum.