Klukkan 17.00 í dag verður upplýsingafundur haldinn í húsakynnum Blaðamannafélags Íslands vegna verkfalls blaðamanna á föstudaginn á milli 10:00 og 14:00. Verkfallið tekur til blaðamanna, ljósmyndara og tökumanna sem starfa á mbl.is, frettabladid.is, visir.is og ruv.is.
Á fundinum mun formaður Blaðamannafélagsins, Hjálmar Jónsson, svara þeim spurningum sem kunna að vakna.
„Við erum auðvitað að feta nýja braut, við höfum ekki farið í verkfall í 41 ár. Aldrei síðan netmiðlar komu til sögunnar. Þannig að það gætu einhverjar spurningar vaknað,“ segir Hjálmar í samtali við Mannlíf.
Hann segir að málið sé einfalt:
„Það fer ekkert efni inn á netið á þessum miðlum á milli klukkan 10:00 og 14:00 á föstudaginn. Og tökumenn og ljósmyndarar fara ekki í tökur á þessi tímabili. Og þetta á líka við um verktaka. Mér þykir líklegt að blaðamenn birti tilkynningu þar sem fólk er minnt á að ekki verði fluttar fréttir á milli klukkan 10.00 og 14:00 þennan dag.“
„Það er hugur í mönnum. En það gerir það enginn að gamni sínu að fara í verkfall.“ segir Hjálmar, aðspurður um hljóðið þeim blaða- og fréttamönnum, ljósmyndurum og tökumönnum sem eru á leið í verkfall.