Félagsmenn í Blaðamannafélagi Íslands lögðu niður störf í dag frá kl. 10-14. Var þetta fyrsta vinnustöðvunin af þremur á netmiðlunum Vísi hjá Sýn, mbl hjá Árvakri, netfréttum Fréttablaðsins og myndatökumönnum Ríkissjónvarpsins.
Söfnuðust félagsmenn saman í húsakynnum Blaðamannafélagsins á meðan á vinnustöðvuninni stóð, þar sem Hjálmar Jónsson formaður félagsins fór yfir stöðu mála.
„Því miður eru verkfallsbrot í gangi bæði á Morgunblaðinu og RÚV að okkar mati. Það er ótrúlegt að menn skuli beita sér fyrir því að brjóta niður vinnustöðvun með þessum hætti á 21. öldinni. Þetta er eins og á kreppuárunum finnst mér; að menn láti sér detta í huga að brjóta löglega boðaða vinnustöðvun,“ sagði Hjálmar þegar verkfallið var rúmlega hálfnað.
En nánast á sömu mínútu og verkfallið hófst, byrjuðu að birtast fréttir á mbl.is og héldu áfram að detta inn allan þann tíma sem verkfallið stóð yfir. Hópur blaðamanna á mbl hafa gefið frá sér yfirlýsingu þess efnis að þetta hafi verið gert með vilja og vitund ritstjóra og framkvæmdastjóra Morgunblaðsins.
„Mikil vonbrigði. Ég vil nefna það að allir sem voru á vakt á mbl.is lögðu niður störf klukkan tíu í morgun. En þá gengu blaðamenn af öðrum deildum og jafnvel í öðrum löndum inn í störf þeirra og fóru að skrifa á mbl.is, segir Guðni Einarsson, trúnaðarmaður á Morgunblaðinu, aðspurður um skoðun sína á verkfallsbrotinu.
„Og það eru auðvitað ákveðin grá svæði. En sum þessarra verka eru tvímælalaus verkfallsbrot og við þurfum auðvitað að fá skorið úr því eftir réttum boðleiðum,“ segir Guðni. Og það verður gert því Blaðamannafélagið mun kæra hin meintu brot til félagsdóms.