„Þekkir þú sögu um hótanir á Íslandi? Til dæmis vinnuveitandi að gefa í skyn að flokksmenn einhvers stjórnmálaflokks séu ekki velkomnir eða samkeppnisaðili að monta sig af valdamiklum vinum? Ef svo, vinsamlegast gefðu þér smá tíma til þess að skrifa stutta lýsingu af reynslu þinni. Vinsamlegast hafðu söguna þína nafnlausa.“
Svona hefst lýsingin á vefsíðu sem Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, setti upp í dag. Hann segist hafa fengið hugmyndina eftir þátt Silfursins á Rúv fyrr í dag. Þetta kemur fram á vef Vísis.
„Maður hefur heyrt ýmsar sögur um það að fólki sé hótað vinnunni og fólk þori ekki að mæta fundi hjá okkur,“ segir Björn Leví. „Þetta er þekkt úti á landi og maður hefur heyrt þessar sögur.“ og er hann þá að vísa í að atvinnurekendur vilji ekki ráða fólk í vinnu vegna stjórnmálaskoðana þeirra.
Björn vill halda sögunum nafnlausum og að eigin sögn sótti hann innblástur í uppsetningu upplýsingasöfnunarinnar í MeToo-byltinguna. „Þetta er á sömu forsendum og MeToo, fólk sé ekki nefna hverjir það voru að hóta eða hverjum var hótað.“
Segist hann ekki vita hvenær erða hvernig niðurstöður könnunarinnar verði birtar, en það verði gert með einhverjum hætti.
„Ég veit ekkert hvernig viðbrögðin verða við þessu. Þetta er svona smá tilraun til þess að fá fólk til þess að segja frá.“
Hér er hlekkur inn á síðuna hans Björns.