Þorbergur Aðalsteinsson, fyrrverandi landsliðsþjálfari í handbolta, furðar sig á umfjöllun um það sem kallað var tilraunir til flugráns þegar vél Wizz Air á leið til Keflavíkur var lent í Stavangri í ágúst síðastliðnum.
Hann er ósáttur við að enginn hafi reynt að heyra í sér en hann hefur einungis fengið að heyra að hann er ekki velkominn í flug með þeim næstu tólf mánuði.
„Þarna akkúrat hafði ég ekki tekið neinar verkjatöflur og leið nokkuð vel en það sem gerist er að ég sofna ekkert fyrir þann tíma þannig ég er búinn að ákveða að fá mér eina svefntöflu áður en ég fer í vélina klukkan sjö og ég sofna mjög fljótlega,“ segir Þorbergur.
Hann vaknar þremur tímum síðar, pantar sér morgunmat hjá flugfreyju en var einungis með evrur en ekki greiðslukort.
„Ég sit fremst í vélinni og þið vitið hvernig borðið kemur upp og þetta er allt vesen og ég illa vaknaður. Það hleypur einhver pirringur í hana út af þessu öllu og hún rífur morgunmatinn bara af borðinu,“ segir Þorbergur.
„Ég stend upp og labba alveg fremst og henni hefur eitthvað brugðið. Svo reyndi ég að fara á klósettið og var örugglega svolítið ör í snúningum. Svo labbaði ég að henni og spyr hvort hún geti ekki reddað þessu og það er enn pirringur í henni. Svo sest ég í sætið og ég sofna,“ segir Þorbergur.
Hann segir að þegar hann hafi vaknað um 45 mín seinna hafi einkennileg atburðarrás farið af stað. Hann er beðinn um að framvísa vegabréfi, sem hann neitar í fyrstu, en gefur svo eftir með það.
„Svo dotta ég áfram og svo veit ég ekki fyrr en að vélin er að fara að lenda í Stavangri. Þá heyri ég bara í hátalaranum að vélin er að fara að lenda,“ segir Þorbergur. En hann neitar því að komið hafi til handalögmála og er ósáttur við fréttir um það í fjölmiðlum.
„Svo opnast hurðin. Kemur ekki lögreglukona á fleygiferð með svona skjöld og beint að mér og kallar á mig að vera rólegur. Ég horfi á hana og svo vinstri til hægri og var svo bara handjárnaður og borinn út,“ segir hann. En mikill viðbúnaður var fyrir utan vélina, sem Þorbergur furðaði sig á.
„Það voru allir yfirheyrðir í kringum mig og áhöfnin. Það voru allir sammála um að það hafi ekkert gerst. Lögreglan felldi svo málið niður,“ segir Þorbergur. En hann segir Íslending í vélinni hafa hringt í Hringbraut og málið svo spunnist þannig, líkt og hann hafi reynt að ræna vélinni. Aðrir fjölmiðlar hafi svo fylgt þessu eftir.
„Þetta er bara níð á mér og ég veit ekkert af hverju og ég veit ekkert hver þessi maður er,“ segir Þorbergur.
Þorbergur var til viðtals í Bítinu á Bylgjunni um málið og furðaði sig á umfjöllun fjölmiðla um málið.
Þetta kom fram á vef Fréttablaðsins.