Saga Nazari er ung tónlistar- og útvarpskona á X-inu 977. Hún hafði einungis verið í gagnkynhneigðum samböndum, allt þar til í fyrra, þegar hún varð ástfangin af stelpu í fyrsta sinn. Sú stelpa kom svo út sem trans-strákurinn Bjarki Steinn Pétursson stuttu seinna.
Þrátt fyrir að vera hamingjusamari en nokkru sinni fyrr óttast Saga þó viðbrögð föður síns sem er strangtrúaður múslimi.
„Pabbi sagði alveg reglulega við mig þegar ég var yngri og og ég var forvitin, samfélagið á Íslandi er allt öðruvísi miðað við samfélagið inn í þessari fjölskyldu, ég var forvitin með hvernig tekið væri í það ef einhver fjölskyldumeðlimir upplifir sig sem tvíkynhneigða eða samkynhneigða. Hann sagði bara mjög hreint út að manneskjunni væri hafnað úr fjölskyldunni, að það myndi enginn tala við viðkomandi. Það væri ekki boðið í matarboð og heimsókn. Það væri ekki velkomið,“ segir Saga.
Hún hefur ekki ennþá sagt föðurfjölskyldu sinni, sem býr erlendis, frá Bjarka og óttast það versta. Mögulega fái hún aldrei að sjá föðurfjölskyldu sína aftur.
„Ég ætla ekkert að ljúga að mér finnist það ekki auðvelt. Ég elska þau mjög mikið og þau eiga rosa stóran hlut í hjarta mínu þó þau séu strangtrúuð. Það eru allskonar gildi sem þau eru með sem ég er ekkert sammála og ég hef aldrei verið. Þetta er mjög stór hluti af mér, hefðirnar að borða saman, að sjá systkini mín og fá tækifæri að vera með þeim. En ég er ástfangin af Bjarka. Þetta er maður sem ég sé fyrir mér að stofna fjölskyldu með og í dag er hann fjölskylda með. Það er eitthvað sem þau eru ekki að bjóða upp á á heilbrigðan hátt.“
Hér fyrir neðan má sjá viðtalið við Söru í heild sinni.