Guðrún, 65 ára spilafíkill, áætlar að hún hafi tapað 30 til 50 milljónum króna í spilakössum.
Í viðtali við Morgunblaðið í dag, segist hún fyrst hafa orðið forfallinn spilafíkill þegar hún fór í Háspennukassana í kringum aldamótin. Hún var farsæl í sínu starfi og hafði unnið á sama stað lengi en spilafíknin jókst jafnt og þétt og fór hún að spila tvo til þrjá tíma á hverjum degi.
„Umhverfið, hljóðin í kössunum – það er svo margt sem mér fannst heillandi“
Aðspurð að því hvernig maður geti falið það fyrir maka sínum og fjölskyldu að spila í spilakassa fyrir tugþúsundir króna á dag, segir Guðrún það lítið mál:
„Ég sá alfarið um fjármál okkar og mér tókst að leyna þessu lengi. Spilafíklar eru, eins og aðrir fíklar, mjög lunknir við að fela hlutina. Ég vaktaði t.d. ferðir póstsins þannig að ég var alltaf heima þegar hann kom og gat þá stungið undan reikningum sem bárust. Það gekk ekki alltaf upp og þá lét ég senda allan póst í pósthólf, þangað sem ég sótti hann, og faldi ógreiddu reikningana.“
Guðrún náði loks tökum á fíkninni eftir meðferð á Vog. Um var að ræða almenna meðferð fyrir alkóhólista en sjálf hafði hún aldrei smakkað áfengi. „Ég spurði sjálfa mig; hvað ertu að gera hérna? Þú átt ekkert erindi hér. En ég fann mig fljótlega, meðferðin nýttist mér vel og ég fór út sem óvirkur fíkill.“
Viðtalið í heild sinni má lesa hér.