Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu gerði sig líklega til þess að stöðva bíl á Bústaðavegi, við Flugvallarveg, til að kanna ástand ökumannsins rétt fyrir tvö í nótt. Ökumaðurinn hlýddi ekki merkjagjöf lögreglu og stöðvaði ekki bifreiðina. Hófst þá eftirför og mældist hraði bifreiðarinnar allt að 120 km/klst.
Eltingarleikurinn endaði við Sprengisand og var ökumaðurinn handtekinn þar. Hann er grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna, að fara ekki að fyrirmælum lögreglu, of hraðan akstur og fleiri brot. Hann var látinn laus að lokinni upplýsinga- og sýnatöku. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu.