Auglýsing

Lét átta ferðir duga:„Ekki skynsamlegt að leggja í neina óþarfa áhættu“

John Snorri Sigur­jóns­son, sem ætlaði að ganga fjór­tán ferðir upp Esjuna á 28 klukku­tímum, ákvað í dag að láta átta ferðir duga. Hann hóf gönguna kl 18 í gærkvöldi og lét staðar numið eftir hádegi í dag.

„Ég fann orðið til í hægra hné þegar ég var á áttundu ferðinni upp Esjuna og verkirnir jukust jafnt og þétt. Það væri í sjálfu sér ekkert tiltökumál en þar sem það eru bara tvær vikur í brottför til Pakistan þá fannst mér ekki skynsamlegt að leggja í neina óþarfa áhættu. Þessir sprettir upp Esjuna í gær og í dag voru fyrst og fremst hugsaðir sem æfing og fjáröflun til að vekja athygli á verkefninu en ekki til að stefna því í hættu,“ segir John Snorri í tilkynningu til fjölmiðla.

„Ég fékk fullt út úr þessu æfinga­lega séð. Ég er búinn að vera í fjallinu í roki og kulda í rúm­lega 18 tíma sem er góður tími til að undir­búa and­legu hliðina. En auð­vitað er einn þáttur í svona þjálfun að taka réttar á­kvarðanir og láta kappið ekki koma sér í vand­ræði,“ segir hann. En John, sem árið 2017 varð fyrsti Ís­lendingurinn til þess að komast á topp fjallsins K2, mun í næsta mánuði reyna aftur að vetri til. Takist honum ætlunarverkið verður hann fyrsti maður heims til að ná á topp fjallsins að vetri til.

Fjallið, sem er 8.611 metra hátt, er talið vera eitt hættu­legasta og mann­skæðasta í heimi en um fjórðungur þeirra sem hafa reynt að klífa fjallið hefur farist í þeirri ferð.

Þetta kom fram á vef Fréttablaðsins.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing