Í tilkynningu frá ferðaþjónustufyrirtækjunum Arctic Adventures og Into the Glacier segir að fyrirtækin tvö hyggist sameinast. Stefna þau á skráningu á hlutabréfamarkað innan tveggja ára.
Í tilkynningunni segir að með sameiningunni verði til „stórfyrirtæki“ sem sinni ferðatengdri afþreyingu í öllum landshlutum en starfsmenn hins sameinaða félags telja um fjögur hundruð manns.
Gengið hefur verið frá samkomulagi Arctic Adventures hf. og framtakssjóðsins Icelandic Tourism Fund I (ITF) um sameiningu Arctic Adventures og Into the Glacier ehf.
Um leið kaupir Arctic Adventures hluti ITF í fjórum afþreyingarfyrirtækjum í ferðaþjónustu: Óbyggðasetri Íslands í Fljótsdal, Raufarhóli ehf., sem rekur ferðaþjónustu í Raufarhólshelli, Skútusiglingum ehf. á Ísafirði, sem starfar undir vörumerkinu Borea Adventures og Welcome Entertainment ehf, sem stendur að leiksýningunni „Icelandic Sagas – The Greatest Hits“ í Hörpu.
Fyrirtækjaráðgjöf Kviku Banka veitti ráðgjöf vegna viðskiptanna og mat verðmæti fyrirtækjanna.
Into the Glacier, býður upp á ferðir inn í ísgöngin í Langjökli sem eru stærstu manngerðu ísgöng í heimi. Hátt í 60 þúsund manns hafa heimsótt ísgöngin á árinu, að því er fram kemur í tilkynningu.
Arctic Adventures hefur lagt áherslu á að gefa ferðafólki kost á ævintýrum og upplifun í íslenskri náttúru. Viðskiptavinir á árinu eru um 250 þúsund. Samanlögð velta fyrirtækjanna tveggja á árinu 2019 er um sjö milljarðar króna.
Þetta kom fram á vef Vísis.