Lesendur DV hafa valið mann ársins 2019. Að þessu sinni hlaut rannsóknarblaðamaðurinn Helgi Seljan titilinn. En hann hefur verið áberandi í umfjöllun um Samherjamálið svokallaða sem fréttaskýringaþátturinn Kveikur, í samstarfi við Wikileaks, Stundina og Al Jazeera, afhjúpaði í nóvember með aðstoð uppljóstrarans Jóhannesar Stefánssonar.
Helgi Seljan hlaut sannfærandi kosningu sem maður ársins, með rúmlega 27 prósent atkvæða og hafði betur gegn Jóhannesi Stefánssyni, uppljóstraranum í Samherjamálinu, sem hafnaði í öðru sæti í kosningu lesenda, og einnig gegn Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Miðflokksins, sem hafnaði í þriðja sæti. Afar mjótt var á munum með 2. og 3. sætið, en Jóhannes hlaut 13,88 prósent atkvæða á meðan Sigmundur fékk 13,71 prósent.
„Í það fyrsta er ég mjög þakklátur að vera valinn maður ársins en finnst samt svolítið eins og ég sé að skilja samstarfsfólk mitt útundan. Hvort sem það eru Aðalsteinn og Stefán eða auðvitað Kristinn Hrafn, samstarfsfólkið mitt í Kveik, Þóra Arnórs, Rakel. Ég tala nú ekki um uppljóstrarann Jóhannes og aðra uppljóstrara í málinu.“
„Ég þakka strákunum [Stefáni og Aðalsteini] fyrir að hafa haldið geðheilsunni minni gangandi. Við vorum í einangrun í marga mánuði að vinna þetta, því það er ekki sjálfgefið að geta haldið svona máli hljóðu á þessu landi þar sem allt fréttist. Við gátum ekki mikið verið í samneyti við annað fólk því við vorum svo hræddir um að kjafta eitthvað af okkur. Þetta var erfitt.“
Þetta kom fram á vef DV.