Sjónvarpsstjarnan Eva Laufey Kjaran birti einlægan áramótaannál á Instagram á nýársdag. Hún segir árið 2019 hafa verið lærdómsríkt en ekki áfallalaust.
„Þetta ár var líka mjög krefjandi fyrir mig þar sem ég eyddi stórum hluta ársins að finna mig upp á nýtt eftir óþægilega lífsreynslu í mars þegar ég hélt að ég væri að fá hjartaáfall. Eftir margar rannsóknir og ófáar spítalaheimsóknir var niðurstaðan einfaldlega sú að líkaminn væri að biðja um meiri ró og andlega hliðin væri í ólagi. Kvíði og streita kom mjög aftan að mér og það var ekki auðvelt að sætta sig við það þegar allt „á“ að vera í lagi og maður upplifir sig svo vanmáttugann. Ég gat lengi vel ekki hreyft mig eins og ég vildi út af verkjum og hræðslu við of mikinn hjartslátt, ég þurfti að stoppa sjónvarpsupptökur og anda í poka með hjálp samstarfsfólks til þess að koma mér í gegnum verkefnin. Mig langaði að hrista þetta af mér í einum grænum en það gekk ekki og ég fór loksins og fékk viðeigandi aðstoð. Nú mörgum mánuðum seinna og sálfræðimeðferð að baki líður mér loksins eins og ég sjálf á ný – það er besta tilfinning sem ég hef fundið í langan tíma. Mér tókst að komast í gegnum þetta verkefni með fagfólki, fjölskyldunni minni og vinum mínum sem hafa staðið þétt við bakið á mér sem og skilningsríku samstarfsfólki og yfirmönnum. Ég get aldrei fullþakkað það hvað ég á góða að,“ skrifar Eva Laufey
Hér fyrir neðan má lesa pistil Evu í heild sinni.