Eldur kom upp í íbúð í þriggja hæða fjölbýlishúsi í Hafnarfirði um klukkan tvö í nótt og var allt tiltækt slökkvilið á höfuðborgarsvæðinu sent á vettvang.
Þegar komið var á staðinn var íbúi íbúðarinnar kominn út en íbúar á hæðinni fyrir ofan, móðir og tvö börn hennar, biðu björgunar úti á svölum. Mikill eldur logaði í eldhúsi íbúðarinnar og var reykur kominn um allt húsið.
Að sögn varðstjóra slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins gekk greiðlega að slökkva eldinn en miklar skemmdir urðu í húsinu af völdum elds og reyks. Einn var fluttur á slysadeild til skoðunar.
Vísir greindi frá þessu.