Samstarfsfólk Sólrúnar Öldu Waldorff, sem hlaut alvarleg brunasár nú í haust, hefur blásið til svokallaðrar freyðiglímu til styrktar Sólrúnu í samstarfi við Kaffibarþjónafélag Íslands, í kvöld í húsakynnum Te & Kaffi í Borgartúni 21. Aðgangseyrir eru þúsund krónur og rennur allur ágóði óskiptur til Sólrúnar.
Sólrún og Rahmon, kærasti hennar, brenndust illa í október síðastliðinn þegar eldur kom upp í kjallaraíbúð þeirra í Mávahlíð. Hlutu þau bæði alvarleg brunasár á stóra hluta líkamans og hafa farið í fjölda aðgerða, bæði hér heima og í Svíþjóð.
„Við hugsuðum bara hvað við gætum gert fyrir Sólrúnu og ákváðum að fyrst við hefðum þennan vettvang, að þá væri þetta sniðugt,“ segir Kristín. „Við vorum auðvitað alveg harmi slegin þegar við fréttum af brunanum heima hjá Sólrúnu, en hún hefur starfað hjá okkur í hátt í tvö ár og okkur þykir öllum gríðarlega vænt um hana.” segir Kristín Björg Björnsdóttir, yfirþjálfari hjá Te & Kaffi og einn skipuleggjanda viðburðarins í samtali við Fréttablaðið.
„Freyðiglíma er í raun keppni á milli tveggja þar sem þeir hella munstri úr froðu. Þetta hafa verið stórar keppnir og ætti að vera mikið sjónarspil,“ segir Kristín og tekur fram að að reynsla af kaffibarþjónastörfum sé ekki nauðsynleg í þátttöku í freyðiglímunni.
Sérstakur viðburður er á Facebook tileinkaður kvöldinu en viðburðurinn hefst klukkan 19:00 í kvöld og er öllum frjálst að skrá sig til keppni.