Golden Globe verðlaunahafinn Hildur Guðnadóttir hlaut titilinn Tónlistarmaður ársins hjá tónlistartímaritinu The Reykjavík Grapevine sem kom út í dag en þetta kemur fram í tilkynningu frá Grapevine. Vísir greindi frá þessu.
„Ég fann mikla breytingu eftir #metoo byltinguna. Tónlistariðnaðurinn er miklu meðvitaðri um skort á framlagi kvenna til kvikmyndatónlistar og tölurnar tala sínu máli,“ sagði Hildur í viðtali við Reykjavík Grapevine.
„Ég held samt að besta leiðin til þess að breyta þessu sé að mæta í vinnuna og sýna þannig gott fordæmi,“ segir hún einnig en viðtalið í heild sinni má lesa í tímariti Reykjavík Grapevine eða á vefsíðu tímaritsins, grapevine.is
Í viðtalinu segist hún meðal annars hyggja á samstarf með myndlistamanninum Ólafi Elíassyni og hvíla sig á kvikmyndatónlist að sinni.