Tvö stór snjóflóð féllu við Flateyri og það þriðja við Norðureyri í Súgandafirði í gærkvöldi. Þau ollu töluverðum skemmdum en enginn slasaðist alvarlega.
Björgunarsveitarmenn komu unglingsstúlku til bjargar sem lenti í öðru snjóflóðanna á Flateyri. Fréttastofa Rúv hefur upplýsingar um að björgunarsveitarmenn hafi verið snöggir á staðinn og grafið hana upp úr flóðinu. Systkini hennar, fimm ára gömul stelpa og níu ára gamall drengur, komust út úr húsinu sem flóðið féll á ásamt móður sinni með því að klifra út um glugga, en herbergi unglingsstúlkunnar fylltist af snjó. Stúlkan er nú komin á sjúkrahúsið á Ísafirði og ekki talin vera með mjög alvarlega áverka.
Guðmundur Gunnarsson, bæjarstjóri á Ísafirði, segir í samtali við Rúv að fréttirnar af snjóflóðunum þremur í gærkvöldi veki upp gríðarlega sterkar tilfinningar, sérstaklega hjá Flateyringum.
„Hugur okkar er hjá Flateyringum og auðvitað erum við ótrúlega þakklát fyrir það að allir heilir á húfi.“ Hann hrósar björgunarsveitinni á Flateyri fyrir það þrekvirki sem unnið var þegar unglingsstúlku var bjargað úr snjóflóðinu.