Sjónvarpsserían Fangar er fyrsta íslenska serían sem verður endurgerð í Hollywood, en rétturinn var nýlega seldur þangað, að sögn Unnar Aspar Stefánsdóttur, leikara og eins framleiðanda Fanga.
Þessu greinir Unnur frá í viðtali í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.
„Stærsta verkefnið mitt hingað til er Fangar, sem var áratug í vinnslu, en við Nína Dögg Filippusdóttir unnum það saman, ásamt frábærum hópi fólks. Og það er gaman að segja frá því að nú erum við heldur betur að uppskera. Það er búið að skrifa undir samning og er þetta fyrsta íslenska serían sem er endurgerð í Hollywood,“ segir hún en segir jafnframt málið enn á frumstigi. Hún viti ekki enn hvort íslenska teymið muni koma að endurgerðinni á einhvern hátt.
„Það er allt opið. Þetta er rosa stórt! Mjög stór nöfn koma að þessu sem við megum ekki greina frá strax. Og þetta sem byrjaði bara sem hugmynd þegar við Nína vorum að láta okkur leiðast í fæðingarorlofi!“