Stefnumótaforritið Tinder hefur tilkynnt að notendur þess í Bandaríkjunum fái brátt aðgang að neyðarhnappi í forritinu, sem mun gera þeim kleift að gera yfirvöldum viðvart telji þeir sig vera í hættulegum aðstæðum.
Notendur verða tengdir öryggisforritinu Noonlight og komast þannig í samband við neyðarlínu, þegar ýtt er á hnappinn.
Fleiri öryggisráðstafanir eru í bígerð hjá Tinder t.d. sannprófun myndefnis notenda, sem mun felast í því að gervigreind metur ljósmyndir sem notendur hlaða inn í forritið og ber saman við ljósmynd sem tekin er af notandanum í rauntíma. Fá þeir notendur sem standast prófið einskonar skjöld sem sannar fyrir öðrum notendum að myndirnar séu af þeim.