Fyrsti þáttur af sænsk-íslensku þáttaröðinni Ísalög, eða Tunn is, verður frumsýndur á Rúv á sunnudagskvöldið. Þetta kemur fram á vef Rúv
Þáttaröðin eru sú dýrasta sem framleidd hefur verið á Íslandi en hún kostaði um einn og hálfan milljarð í framleiðslu. Þættirnir gerast að mestu í Grænlandi en þrátt fyrir það fóru tökur að miklu leyti fram hér á Íslandi. Stykkishólmur er meðal annars í hlutverki þorps á Grænlandi í þáttunum.
„Það má segja að þetta sé tekið meira og minna allt hér á Íslandi. Þetta á að gerast að stærstum hluta í Tasiilaq á Austur-Grænlandi. Ástæðan fyrir því er til dæmis að Grænland hefur ekki innviði til að takast á við svona stórt verkefni,“ sagði Kristín Þórhalla Þórisdóttir, eða Kidda Rokk eins og hún er gjarnan kölluð, í Morgunútvarpinu á Rás 2.
Meðal leikara er sænska leikkonan Lena Endre, sem lék einnig í myndinni Karlar sem hata konur, Alexander Karim, Bianca Kronlöf, Grænlendingurinn Angunnguaq Larsen og danska leikkonan Iben Dorner, en þau tvö síðastnefndu léku bæði í sjónvarpsþáttunum Borgen, sem sýndir voru á RÚV fyrir nokkrum árum við góðar undirtektir.