Karlmaður var stunginn með hníf í heimahúsi á Kópaskeri um kl. 21 í gærkvöldi. Líðan hans er sögð stöðug en hann er á gjörgæsludeild á Akureyri.
Í tilkynningu frá lögreglunni á Norðurlandi eystra segir að árásarmaðurinn hafi brotið sér leið inn í húsið, stungið manninn og látið sig hverfa eftir verknaðinn. Karlmaður á fimmtugsaldri var handtekinn seinna um kvöldið, ásamt tveim öðrum.
Kona sem einnig var stödd í húsinu tilkynnti þetta til lögreglu, sjálf var hún óslösuð en lýsti alvarlegum áverkum á manninum. Á þessum tíma var slæmt veður á Kópaskeri og vegir ófærir að þorpinu.
„Þegar var óskað eftir útkalli sérsveitar Ríkislögreglustjóra með þyrlu, auk þess sem starfsmenn Vegagerðarinnar voru ræstir út til að opna lögreglunni leið eftir veginum. Lögreglumenn frá Akureyri og Húsavík fóru á staðinn ásamt rannsóknarlögreglumönnum og komu fyrstu menn á vettvang um kl. 22:50. Læknir sinnti þá þeim slasaða, sem var með takmarkaða meðvitund. Þyrla lenti með sérsveitarmenn á Kópaskeri um kl. 23:40. Sá slasaði var þá þegar fluttur með þyrlunni á Sjúkrahúsið á Akureyri. Hann er þar á gjörgæsludeild og er líðan hans sögð stöðug,“ segir í tilkynningunni.