Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn ítrekaði það fyrir fólki á blaðamannafundi almannavarna í dag að „það væri ekki kominn fjórði maí.“ Hann segist óttast það að það geti komið bakslag í þróunina ef fólk verður kærulaust vegna boðaðra afléttinga.
„Við fengum á tilfinninguna í gær að fólki væri létt og við áttum von á því en við áttum ekki von á því endilega að fólk byrjaði að hugsa að það væri kominn 4. maí. Það eru enn tæpar þrjár vikur þangað til. Við erum enn að berjast við þetta af sama krafti og síðustu vikurnar. Þegar menn hugsa sig bara aðeins um er enginn áhugi hér á að fá eitthvert bakslag,“ sagði Víðir.
Hann tók engin sérstök dæmi um það hvernig fólk hafi verið farið að slaka á taumnum en sagði að fleira fólk hefði einfaldlega verið á ferli á ákveðnum stöðum.
„Það er svo sem eðlilegt, fólk verður að halda áfram að lifa, versla og fara á veitingastaði, en það eru stærri hópar sem okkur hefur verið bent á að séu að hittast, og að menn séu farnir að plana næstu daga í uppákomum og slíku. Það er ekki tímabært.“