Þrír menn voru færðir á lögreglustöð fyrr í vikunni eftir að þeir voru staðnir að því að stela eggjum undan æðarkollum í varplandinu Stafnesi við Sandgerði. Þetta segir í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum.
Sáust mennirnir ganga um æðavarpið með plastpoka. Þegar sá sem stóð þá að verki tók að ræða við þá harðneituðu þeir að hafa verið að tína egg og sögðust vera að taka myndir. Það fundust engu að síður þrír plastpokar sem innihéldu samtals 135 egg, sem enn voru volg, rétt við bifreið þeirra.
Eins og fyrr sagði þá færði lögreglan á Suðurnesjum mennina á lögreglustöð þar sem þeir höfðu gerst sekir um brot á reglugerð um friðun tiltekinna villtra fugla og friðlýsingu æðavarps.
Rúv greindi frá þessu.