Auglýsing

,,Frá og með deginum í dag 6. júlí munum við hætta öllum samskiptum við sóttvarnarlækni og landlækni”

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, birtir í dag á Vísi opið bréf til Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra.

Í bréfinu fer hann yfir það hvernig Íslensk erfðagreining sá ein og óstudd um nær alla skimun í landinu um nokkurra vikna skeið.

,,Þegar við urðum ekki vör við neinar raunverulegar áætlanir um að einhver tæki við af okkur sem hefði til þess burði urðum við óróleg, vegna þess að án þess að sjá fyrir endann á okkar framlagi gátum við ekki réttlætt að halda þessu áfram vegna þess að okkar dagvinna felst í allt öðru,” skrifar Kári og birtir næst tölvupóstsamskipti sín við Katrínu.

Þar leggur hann til að stofnuð verði einskonar farsóttarstofnun sem myndi sjá alfarið um allt sem tengist Covid-19 og þar yrði sameinuð yrði undir einn hatt sameindalíffræði, tölfræði, stærðfræði og smitsjúkdómafræði. Hann býður einnig fram húsnæði og starfsfólk.

,,Ef ekki verður farið að byggja upp svona getu innan heilbrigðiskerfisins strax í dag er augljóst að Þjóðin lendir innan skamms í miklum vanda. ÍE fer fram á að ríkisstjórnin gefi út yfirlýsingu á næstu dögum um að það verði strax ráðist í að setja saman svona apparat.”

,,Ef það verður ekki gert neyðumst við til þess að hætta allri aðkomu að skimun og öðrum þáttum sóttvarna, vegna þess að án þess verðum við að halda áfram að vanrækja þá vinnu sem okkur er ætluð. Ef þið ákveðið að ráðast í að búa til Farsóttarstofnun Íslands erum við reiðubúin til þess að aðstoða eftir megni.” 

Katrín þakkar Kára kærlega fyrir framlag hans í baráttunni við Covid-19 og segir að tekin hafi verið ákvörðun um að ráða verkefnastjóra undir yfirstjórn sóttvarnalæknis.

,,Í þessu ljósi mun ríkisstjórnin taka til skoðunar og frekari úrvinnslu tillögu þína um sérstaka stofnun á þessu sviði. Því hefur verið ákveðið að ráða verkefnastjóra undir yfirstjórn sóttvarnalæknis. Hann fær það verkefni að greina hvernig megi efla innviði heilbrigðiskerfisins til að takast á við faraldra framtíðarinnar, með hliðsjón af tillögu þinni og þeirri reynslu sem við höfum öðlast í glímunni við covid-19. Jafnframt mun hann aðstoða sóttvarnalækni við að ná sem bestum tökum á yfirstandandi faraldri í nánu samstarfi við þig og fyrirtæki þitt.” 

Kári svarar þessum tölvupósti þá með því að tilkynna Katrínu að Íslensk erfðagreining muni hætta öllum samskiptum við sóttvarnarlækni og landlækni út af SARS-CoV-2.

,,Það er ljóst á þessu svari þínu að þér er þetta vandamál ekki eins brátt og okkur. Þú gengur út frá því sem vísu að við ætlum að halda áfram að sinna skimuninni án þess að hafa nokkurn skapaðan hlut með það að gera hvernig að henni er staðið sem heild í hugsun og verki. Og það sem meira er þér liggur ekkert á að setja saman apparat til þess að taka við af okkur. Þetta gengur einfaldlega ekki,skrifar hann.

,,En nú er okkar þátttöku lokið og engin ástæða til þess að erfa það sem orðið er. Við erum búin að skima eftir SARS-CoV-2 í 72452 einstaklingum meðan Landspítalinn skimaði í 15408. Við erum búin leggja okkar að mörkum og kominn tími til þess að við förum að sinna dagvinnu okkar og engu öðru. Frá og með deginum í dag 6. júlí munum við hætta öllum samskiptum við sóttvarnarlækni og landlækni út af SARS-CoV-2. Síðustu sýnin sem við munum afgreiða eru þau sem berast til okkar á mánudaginn 13. júlí,”  skrifar Kári að lokum.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing