Helgina 23.-25. júlí verður slegið upp heimstónlistarveislu í Klúbbi Listahátíðar í Reykjavík sem staðsettur er í Iðnó.
Frá fimmtudegi til laugardags verður boðið upp á glæsilega tónlistardagskrá þar sem fram koma hljómsveitin Skuggamyndir frá Býsans, Reynir del Norte, Los Bomboneros, Funi og Ragnheiður Gröndal.
Ókeypis er inn á alla viðburði í Klúbbi Listahátíðar í allt sumar og eru tónleikarnir hluti af yfirtökuseríu Klúbbsins í Iðnó, þar sem mismunandi listhópar taka húsið yfir í stuttan tíma í senn.
Hér fyrir neðan má finna ítarlegri upplýsingar um hvern viðburð fyrir sig.
Fimmtudaginn 23.júlí kl 20:30 – 21:30
Hljómsveitin
Skuggamyndir frá Býsans var stofnuð árið 2010 og leikur blöndu af tónlist frá
Balkanskaganum. Sú tónlist teygir sig til þó nokkuð margra landa eins og
Makedóníu, Búlgaríu, Grikklands og Tyrklands en allir eiga stílarnir það
sameigilegt að vera annálaðir fyrir flókna takta, dulúð og mikinn
tilfinningarhita. Meðlimir Skuggamynda eru Haukur Gröndal (klarinett), Ásgeir
Ásgeirsson (tamboura, bouzouki og saz baglama), Erik Qvick (slagverk) og
Þorgrímur Jónsson (bassi).
Föstudaginn 24.júlí kl
20:00 – 21:00
Reynir del Norte er íslenskur Flamenco gítarleikari. Hann er fæddur og uppalinn á Hvanneyri en hefur búið um árabil í Granada, Spáni þar sem hann vinnur sem Flamenco listamaður. Hann hefur sett upp ótal tónleika hér á Íslandi og á Spáni með Flamenco hljómsveitum eða sem einleikari. Reynir er þekktur fyrir orkumikinn og tilfinningaríkan flutning í bland við skemmtilegar sögur og spjall á mili laga um líf hans í Andalúsíu. Reynir del Norte gaf út sína fyrstu sólóplötu, El Reino de Granada, í desember 2019 sem jafnframt er fyrsta íslenska Flamenco hljómplatan. Platan inniheldur átta tónsmíðar Reynis sem fluttar voru af honum sjálfum í samstarfi við nokkra af færustu Flamenco listamönnum Granada. Lög plötunnar verða flutt á tónleikunum sem og nokkur þekkt íslensk dægur-og þjóðlög útsett af Reyni fyrir Flamenco gítar. Þema tónleika verður því íslenskt Flamenco.
Kl 21:20 – 22:20
Los Bomboneros skipa:
Alexandra Kjeld (söngur, bassi), Daníel Helgason (tresgítar), Kristofer Rodriguez Svönuson (slagverk) og Sigrún Kristbjörg Jónsdóttir (básúna, fiðla).
Hljómsveitin hefur starfað við góðan orðstír frá 2016 og hefur komið fram á helstu tónleikastöðum höfuðborgarsvæðisins, bæði fyrir dansi sem og sitjandi áheyrendur. Sveitin hefur hefur sérhæft sig í tónlist Mið- og Suður-Ameríku ásamt frumsömdu efni, og býður til sjóðheitrar dansveislu á Listahátíð Reykjavíkur. Hljómsveitin hefur náð að skapa sinn eigin stíl sem sækir fast í rætur latíntónlistarhefðarinnar, þar sem akústísk hljóðfæri fá sín sem best notið auk söngsins. Fyrsta plata sveitarinnar með tónsmíðum Daníels Helgasonar, er væntanleg á haustmánuðum en auk þess mun hún tefla fram heilli stórsveit (Los Bomboneros y sus Bombasticos) í haust á Jazzhátíð Reykjavíkur í Tjarnarsal Ráðhússins.
Laugardaginn 25.júlí kl
19:00 – 23:00
Funi, Ragnheiður Gröndal og session
Bára Grímsdóttir og Chris Foster koma fram sem Funi og leika nýjar útsetningar á íslenskum og enskum þjóðlögum, sungin og leikin á langspil, gítar, kantele og íslenska fiðlu.
Ragnheiður Gröndal hefur lengi haft áhuga á íslenskri þjóðlagatónlist, hefð sem er að mestu leyti horfin og fáar reglur hafa verið skrifaðar. Sú staðreynd opnar fyrir persónulega tjáningu, nýjar uppgötvanir og listrænt frelsi. Leikið verður eldra efni í bland við nýtt ásamt íslenskum þjóðlögum.
Kvöldið endar á samspili sem fer þannig fram að fólk sest í hring með hljóðfærin sín og spilar það sem það kann úr alþýðuarfi. Allir velkomnir til þess að taka þátt eða hlusta. Bannað er að biðja um Wonderwall.