Sjónvarpsmaðurinn bandaríski Regis Philbin er látinn, 88 ára gamall.
Hann starfaði í 60 ár sem meðal annars leikari, kynnir og þáttastjórnandi. Regis er sá einstaklingur sem hefur verið flestar klukkustundir í sjónvarpi, samkvæmt Guinness World Records. Spjallþátturinn hans Live with Regis, var sýndur á árunum 1989-2011 og var hann einnig þáttastjórnandi í þáttum á borð við America’s Got Talent og Who Wants to Be a Millionaire.
Fjölskylda hans sendi frá sér tilkynningu varðandi andlát hans og þar segir að Regis hafi dáið af náttúrlegum orsökum og þakka þau aðdáendum hans og samferðarmönnum fyrir stuðninginn síðustu 60 árin.