„Ég hef stungið upp á því við stjórnvöld að settur verði á laggirnar samstarfsvettvangur um hvernig við ætlum að hafa þetta næstu mánuði og ár,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við Morgunútvarpið á Rás 2 í morgun.
„Núna er þetta meira en bara sóttvarnamál. Það eru fleiri sem þurfa að koma að borðinu og það þarf að taka tillit til ýmissa sjónarmiða. Mín sjónarmið eru fyrst og fremst sóttvarnasjónarmið og ég áfram halda þeim á lofti en þetta er pólitískt mál, þetta er efnahagslegt mál og alls konar viðhorf.“
Hann bendir einnig á að mikilvægt er að rekja smitin snemma og setja fólk í einangrun eða sóttkví.
„Ef að menn vilja að faraldurinn fari ekki að dreifa sér hérna út um allt. Ef okkur er nokkurn veginn sama um það þá getum við hættu þessu. Þá fáum við örugglega dreifingu hér innanlands með tilheyrandi álagi fyrir heilbrigðiskerfið. En það er þetta sem ég er að tala um, nú þurfa menn að ákveða sig, hvernig vilja menn hafa þetta áfram? Því við eigum eftir að fá aðra hópsýkingu eftir þessa, það eiga eftir að koma smit hérna inn, í raun hvað sem við gerum.“
„Við þurfum að fara venjast þeirri hugsun að við erum ekki í einhverjum litlum orrustum. Þetta er langtíma stríð,“ segir Þórólfur.