Tilkynning barst um hópslagsmál og hraðakstur á lóð Hörðuvallaskóla í Kórahverfi í Kópavogi um klukkan 23 í gærkvöldi. Voru þrír lögreglubílar og bíll sérsveitar ríkislögreglustjóra send á vettvang.
Gunnar Hilmarsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, staðfestir þetta í samtali við vísi
„Þetta voru um 150 til tvö hundruð krakkar. Þetta var mjög óljóst en engar tilkynningar eru um að nokkur hafi slasast. En þarna var gríðarlegur fjöldi af krökkum, fyrirgangur og einhverjir á bílum að elta krakka inni á skólalóðinni.“
Að sögn Gunnars hafa krakkar verið að hópast saman við skólann undanfarið. „Þetta eru líka krakkar úr öðrum hverfum. En þetta er ekki bundið við Hörðuvallaskóla og þannig hafa líka verið sambærileg útköll í Breiðholtinu og víðar.“