Fyrirtækið Borgun varar fólk við tilraunum til fjársvika í nafni Borgunar.
Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að fólk hafi verið að fá senda tölvupósta og sms skilaboð. Í skilaboðunum kemur fram að viðkomandi hafi fyrir mistök borgað kortareikninginn sinn tvisvar og að korti viðkomandi hafi verið lokað. Þá er fólki bent á að fara inn á ákveðna heimasíðu og gefa þar upp kortaupplýsingar svo hægt sé að endurgreiða ofgreiðsluna og opna kortið að nýju.
„Þetta má fólk alls ekki gera því það eru þessar kortaupplýsingar sem fjársvikararnir ásælast og þeir hafa lagt talsvert á sig til að kasta ryki í augu þeirra sem heimsækja vefsíðuna en hún er hönnuð í útliti Borgunar og er með stórri yfirlitsmynd af Reykjavík,“ segir í tilkynningunni.
Fólki er ráðlagt að opna ekki póstana eða skilaboðin og eyða skilaboðunum strax. Undir engum kringumstæðum á fólk að gefa upp kortaupplýsingar. Borgun vill árétta að fyrirtækið biður aldrei um kortaupplýsingar í tölvupósti, í gegnum sms eða með símtali.
„Borgun hefur þegar upplýst lögregluyfirvöld, netöryggissveit Póst- og fjarskiptastofnunar og helstu þátttakendur í öryggissamstarfi fjármálastofnana um áðurnefndar tilraunir til fjársvika. Þétt samstarf allra þessara aðila er höfuðatriði í baráttu gegn netglæpum af þessu tagi.“
Þeim sem hafa nú þegar gefið upp kortaupplýsingar er bent á að hringja í þjónustuver Borgunar í síma 560-1600 eða senda tölvupóst á borgun@borgun.is.