Auglýsing

Kom út úr skápnum með kynhneigðina og geðsjúkdóminn í sama viðtalinu

Sigursteinn Másson segir í viðtali við Sölva Tryggvason frá því þegar hann var ólaður niður á geðsjúkrahúsi í Danmörku og í raun sviptur allri mennsku. Sigursteinn, sem er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva, fékk ungur mikla athygli fyrir öfluga frammistöðu í fréttum Stöðvar 2. Hann varð síðar fréttastjóri á Skjá Einum og röddin í ,,Sönnum íslenskum Sakamálum“. Í viðtalinu ræða þeir Sölvi um það þegar Sigursteinn var að fjalla um Balkanstríðið og sá hræðilega hluti í Kosovo, sem enduðu með því að hann var settur á geðsjúkrahús á leiðinni heim til Íslands.

,,Þarna var allt blóði drifið og fjöldagrafir á engjunum þarna fyrir neðan og við fundum til dæmis litla stúlku sem hafði legið undir líkum ættmenna sinna eftir eina árasina og lifað þannig af og margt fleira. Þarna áttaði ég mig á því að ég gæti ekki verið í almennri umfjöllun um þetta og mér fannst ég verða að hjálpa þessu fólki og fór úr hlutverki fréttamannsins í að reyna að bjarga lífi einhvers fólks og auðvitað tók ég þetta allt hrikalega inn á mig. Það fór alveg með mig að horfa á þetta allt saman,“ segir Sigursteinn, sem segir að eftir á að hyggja hafi þessi ferð verið slæm hugmynd:

,,Ég fæ greiningu á geðhvarfasýki í október 1996 og hafði aldrei heyrt þetta orð og ég streittist bara á móti því og fór til Balkanskagans að gera tvær heimildarmyndir um stríðið sem var þar. Það var alls ekki besta hugmyndin eftir á að hyggja. Enda komst ég ekki lengur en til Kaupmannahafnar á leiðinni til baka og var settur inn á hæli í Danmörku og var þar inni á geðdeild í einn og hálfan mánuð….Til að byrja með á geðsjúkrahúsinu fyrir utan Kaupmannahöfn lenti ég í meðferð sem að var sem betur fer aflögð á Íslandi árið 1930. Að binda fólk bara alveg niður og sprauta það. Ég lenti í því og það var ótrúlega mikil skelfing sem að fylgdi því og það var heil eilífið fyrir mér. Ég fann engan mun á degi og nóttu og var bara bundinn á höndum og fótum og með magabelti í rúmi og var bara að öskra á hjálp og svo var ég bara sprautaður niður reglulega. Það tók mig mjög langan tíma að vinna úr þessu.“

Í viðtalinu ræðir Sigursteinn einnig tímabilið þegar hann var í felum með kynhneigð sína.

,,Ég fékk talsverða athygli og ég átti pínu erfitt með að höndla það og ég var í felum með sjálfan mig og var ekki alveg búinn að átta mig á minni kynhneigð þarna í kringum tvítugt. Ég var að reyna að vera í sambandi með stelpum til að vera venjulegur….en svo kemur Heimir Már (Pétursson) inn á Stöð 2 og það breytti miklu. Þá hafði ég allt í einu einhvern við hliðina á mér sem var ekki að skammast sín fyrir það hvernig hann var. Það var heilmikil hvatning fyrir mig. Þegar ég kom aftur heim frá París eftir stutta dvöl þar hafði ég kjarkinn að fara til fréttastjórans , sem að þá var Ingvi Hrafn Jónsson og segja við hann að ég væri samkynhneigður. Hann brást við með því að segja: 

,,Og hvað ætlaðir þú að segja mér?“

Ég kunni honum miklar þakkir fyrir þau viðbrögð, af því að ég hafði lent í einelti á Stöð 2 út af samkynhneigðinni og þótti þess vegna mjög vænt um þetta.“

Síðar urðu kaflaskil hjá Sigursteini eftir að hann fór í forsíðuviðtal hjá DV og kom úr úr skápnum með allt saman.

,,Ég hitti Mikael (Torfason) á Hótel Holti. Það var sniðugt hjá honum, af því að Holtið er góður vettvangur til að fá fólk til að opna sig og hann vissi það af því að hann er klár. Ég vissi ekki alveg hvað var að fara að gerast, en þarna opna ég mig bara og kem út sem maður með geðsjúkdóm og samkynhneigður, bæði í einu í sama viðtalinu sem kom á forsíðu á DV. Þetta var ótrúlega frelsandi eftir á að hyggja. Ég hafði ekki rætt það við neinn, en þetta var mjög frelsandi og ég fékk ótrúlega fín viðbrögð. Þetta var heilandi og ég held að ég hafi fyrir vikið náð betri tökum á mínum geðsjúkdómi og ég fann ekki fyrir neinum einkennum af honum næstu 11 árin. Þannig að ég held að ég geti þakkað Mikael Torfasyni fyrir að hafa sett mig í þessa óvæntu þerapíu og köldu sturtu.“

,,Ungt fólk sem kemur út úr skápnum í dag á enn stundum erfitt með það ef það vinnur í fjármálageiranum eða íþróttum til dæmis, þannig að þetta fer líka eftir því í hvaða umhverfi fólk er.“

Í viðtalinu ræða Sölvi og Sigursteinn um fréttamennskuna á íslandi í gegnum tíðina, erfiðustu tímabilin, þau bestu og einnig þá áhugaverðu tíma sem nú eru í gangi á Íslandi og heiminum öllum.

Viðtalið í heild má sjá hér að neðan:

 

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing