Þjóðkirkjan hefur átt undir högg að sækja síðustu ár og hluti af gagnrýninni eru fordómar Kirkjunnar gagnvart hinsegin fólki og konum. Stjórnendur hafa gert mikilvægar breytingar á úreltum boðskap og dræmum vinsældum með því að uppfæra boðskap kirkjunnar til nútímans. Þannig má höfða til nýrra sóknarbarna sem hafa frjálslyndari skoðanir en kirkjan hafði áður fyrr.
Nútímavæðing kirkjunnar er kominn það langt að Sunnudagsskólinn er auglýstur á FB með nýrri mynd eftir Láru Garðarsdóttur. Það vekur athygli að á myndinni er Jesús Kristur með brjóst og hefur farðað andlitið örlítið.
Í frétt MBL um málið segir Pétur G. Markan samskiptastjóri Þjóðkirkjunnar frá hugsuninni á bak við myndina:
„Hugmyndin að myndefninu er að fanga samfélagið sem við öll viljum tilheyra; réttlátt, fordómalaust og kærleiksríkt umhverfismiðað samfélag sem einblínir á kærleiksboðskap Jesú Krists í stað þess að hengja sig í hvers kyns hann hafi verið. Það skiptir ekki máli. Kannski var hann eftir allt saman „nonbinary“ trans Jesús eða kona. Það bara skiptir engu máli. Það sem skiptir máli er kærleikurinn og hvernig hann sífellt lagði lögmálið til hliðar og einblíndi á kærleikann, mannvirðingu og einingu allra í andanum,“ segir Pétur.
„Það á myndefnið að fanga og í sunnudagaskólanum lærir maður um kærleikann og umhverfisvernd, í öllum litum regnbogans. Við erum mjög stolt af þessu myndefni og þetta er bara byrjunin. Kirkjan er komin til að vera samferða fólki inn fjölbreytta, kærleiksríka og andríka framtíð þar sem umhverfisvernd, mannréttindi og andlegt líf eru hennar hlutverk. Kannski finnst einhverjum myndin vera stuðandi, það er þá óhjákvæmilegt. Kærleikurinn er eitt stórt gleðistuð,“ segir Pétur
Þetta er stórt skref hjá Þjóðkirkjunni en á heimasíðu Kirkjunnar má sjá athugasemdir frá ýmsum sóknarbörnum. Sumir eru ánægðir en þó eru margir reiðir vegna þess að verið sé að afskræma söguna um Jesú og búa til persónu sem á sér enga stoð í Biblíunni.
Allir færa góð rök fyrir sínu máli en það má segja að nútímavæðing kirkjunnar felist í að endurskapa Jesú í nýrri mynd eftir hugmyndum stjórnenda Kirkjunnar. Þá er spurning hvaða boðskapur stendur eftir þegar hann byggir ekki á Biblíunni, hefðum og venjum, eða upprunalegu hugmyndum trúarinnar sem boðskapurinn byggir á.
Hér er athugasemd frá heimasíðu Kirkjunnar á FB:
„Kirkjan segir að myndin endurspegli þjóðina en það er bara ekki rétt þetta endurspeglar bara viðhorf lítils minnihluta og vekur gleði hjá þeim sem ekki eru trúaðir og nota hvert tækifæri til að níða niður kirkjuna.
Varist falsspámenn Þeir koma til yðar í sauðaklæðum, en innra eru þeir gráðugir vargar.“
Hér er önnur:
„Mér varð bara illt í hjartanu þegar ég sá þessa hræðilegu mynd. Hvað er að gerast í trúmálum okkar þjóðar. Hef íhugað að segja mig úr Þjóðkirkjunni, eingöngu vegna þessar hryllilegu myndar. Bið samt um að fá ekki skammir þó ég tjai mig hér. Ég rígheld í mína fallegu barnatrú.“
Kannski er þetta frábær hugmynd en það mun tíminn aðeins leiða í ljós.