Nú í morgun opnaði netverslun Góða hirðisins á slóðinni www.godihirdirinn.is.
„Með netversluninni getum við náð meiri árangri á sviði sjálfbærni með aukinni þjónustu við viðskiptavini okkar. Netverslunin er ekki síður mikilvæg í baráttunni við Covid-19 og nauðsynleg svo við getum unnið að markmiðum okkar á þessum tímum. Netverslun Góða hirðisins er því bæði skref í átt að meiri sjálfbærni og á sama tíma þjónusta við fólk sem treystir sér ekki til að mæta í verslunina okkar í Fellsmúla. Með netversluninni viljum við gera enn betur, bæði á sviði sjálfbærni og smitvarna,“ segir Ruth Einarsdóttir, rekstrarstjóri Góða hirðisins, í samtali við mbl.is
Hún segir netverslunina vera rökrétt skref fyrir Góða hirðinn.
Fjöldatakmarkanir gilda aftur í versluninni vegna hertra samkomutakmarkanna sem tóku gildi á mánudaginn og geta nú einungis 15 viðskiptavinir komið inn í einu. Eftir komu netverslunarinnar geta viðskiptavinir Góða hirðisins nú keypt vörur í öruggri netverslun og sótt þær næstu tvo laugardaga eftir kaupin.