Á næstunni mun pítsustaðurinn Blackbox opna útibú á Akureyri. Nýji staðurinn verður inni á Hamborgarafabrikkunni og fá gestir þannig val um tvær gerðir af mat á sama staðnum.
Opnunin á Akureyri er liður í nýrri stefnu Blackbox en fyrirtækið stefnir á að opna svokallaða Blackbox Express staði á völdum N1-stöðvum um landið.
„Eftir breytinguna verðum við með Blackbox Pizzeria, sem eru veitingastaðir með fullum matseðli og svo Blackbox Express þar sem matseðillinn er minni, en gæðin og afgreiðsluhraðinn sá sami. Pizzeria-staðirnir verða í Borgartúni og á Akureyri, en Express-staðirnir í Staðarskála í Hrútafirði, Austurvegi á Selfossi, Lækjargötu í Hafnarfirði og Háholti í Mosfellsbæ,“ segir Karl Viggó Vigfússon, stofnandi og framkvæmdastjóri Blackbox, í samtali við ViðskiptaMoggann
Hann bætir því einnig við að fleiri staðir gætu opnað síðar.
„Við ætlum að sjá fyrst hvernig þetta gengur.“