Nýtt sýningarár í Listasal Mosfellsbæjar hefst á sýningu Sindra Ploder, Tilverur. Sindri er 23 ára gamall listamaður með Downs heilkenni. Hann hefur tekið þátt í fjölmörgum samsýningum og verkefnum þrátt fyrir ungan aldur en Tilverur er fyrsta einkasýning hans.
Sindri vinnur helst teikningar og tréskúlptúra og bera verkin sterk höfundareinkenni hans. Myndefnið er aðallega portrett af verum sem eru ekki til. Verurnar eru ekki tröll, ekki nornir, ekki álfar, ekki skrímsli, ekki hauskúpur og ekki alls konar, en eru samt fullar af einhverju. Við vitum aðeins að þær eru til í huga listamannsins og krefjast þess að brjótast út enda er Sindri síteiknandi á hvaða efnivið sem fyrir hendi er.
Fyrsti sýningardagur er föstudagurinn 8. janúar og sýningunni lýkur 5. febrúar. Ekki verður haldin sérstök opnun vegna Covid-19. Listasalur Mosfellsbæjar er staðsettur inn af Bókasafni Mosfellsbæjar, Kjarna, Þverholti 2. Opið er kl. 12-18 virka daga og kl. 12-16 á laugardögum.