Nýtt svið iðnaðar og hugverka hefur verið sett á laggirnar hjá Samtökum iðnaðarins en með skipulagsbreytingunum hefur sviðum verið fækkað úr þremur í tvö. Sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs er Sigríður Mogensen en undir sviðið heyra fyrirtæki í fjölbreyttum greinum iðnaðar, meðal annars í framleiðslu-, matvæla-, hátækni- og hugverkaiðnaði. Þá heyrir orkusækinn iðnaður einnig undir nýja sviðið. Mannvirkjasvið er áfram starfrækt í óbreyttri mynd en undir það heyra fyrirtæki í bygginga- og mannvirkjaiðnaði. Sviðsstjóri mannvirkjasviðs er Jóhanna Klara Stefánsdóttir.
„Skipulagsbreytingarnar eru til þess fallnar að styrkja öflugt starf SI í þágu félagsmanna enn frekar. Iðnaðurinn hefur tekið breytingum á undanförnum árum og fyrirséð er að breytingarnar verði enn meiri á komandi árum. Skipulag SI verður að styðja við þróun í iðnaði og við ætlum áfram að vera framsýn og leiðandi,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI.
Þá hafa tveir nýir starfsmenn verið ráðnir til samtakanna sem hafa þegar hafið störf. Lilja Björk Guðmundsdóttir er nýr viðskiptastjóri á iðnaðar- og hugverkasviði og Ída Margrét Jósepsdóttir er aðstoðarmaður framkvæmdastjóra.
Lilja Björk er með BA og ML í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík og meistaragráðu í evrópskum stjórnskipunarrétti frá Háskólanum í Granada auk þess sem hún hefur málflutningsréttindi fyrir Héraðsdómi. Hún starfaði síðast hjá Rauða krossinum sem lögfræðingur og teymisstjóri í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd.
Ída Margrét er með BA í bókasafns- og upplýsingafræði frá Háskóla Íslands. Hún kemur frá J.P. Morgan í London þar sem hún starfaði sem sérfræðingur í alþjóðlegu verkefnastjórnunarteymi og aðstoðarmaður framkvæmdastjóra. Áður starfaði hún sem aðstoðarmaður stjórnarformanns Kaupþings banka.