Föstudaginn 23. apríl nk. hefst sýningin Fjallamjólk í Listasal Mosfellsbæjar.
Þar sýnir Helgi Skj. Friðjónsson myndir af mjólkurhvítum fjöllum sem unnar eru út frá blönduðum miðlum og yfirfærðar á stafrænt form. „Fjöll,“ segir Helgi, „eru samofin vitund minni og undirvitund.“
Þetta eru allt íslensk fjöll, sum betur þekkt en önnur, sem hafa persónulega merkingu fyrir listamanninn. Verkin eru með sterka vísun í íslenska landslagsmálverkið og auk þess má greina áhrif frá minimalískri japanskri list.
Síðasti sýningardagur er 21. maí. Ekki verður haldin sérstök opnun vegna Covid-19. Listasalur Mosfellsbæjar er staðsettur inn af Bókasafni Mosfellsbæjar, Kjarna, Þverholti 2. Opið er kl. 12-18 virka daga og kl. 12-16 á laugardögum. Gott hjólastólaaðgengi er að salnum.