Á laugardaginn næstkomandi, 25.september, verður haldin sýning á leikmunum, veggspjöldum, leikskrám og búningum frá leikhúsum víðsvegar að í Póllandi. Að auki verða upptökur af leiksýningum fyrir börn frá leikhúsinu Teatr Baj í Varsjá sýndar.
Viðburðurinn er sem áður segir unninn í samstarfi við Sendiráð Póllands á Íslandi, sem og fyrirætluð sýning á myndskreytingum í pólskum barnabókmenntum sem verður í boði í októbermánuði.
Bókasafn Hafnarfjarðar hefur verið að leggja áherslu á að sinna og efla pólska samfélagið á höfuðborgarsvæðinu undanfarin misseri, og hefur það skilað sér í stóraukinni aðsókn, glæsilegu úrvali efnis fyrir börn, unglinga og fullorðna og framsæknum viðburðavetri, en bóksafnið stendur einnig fyrir kvennakúbbum, sögustundum og smiðjum fyrir pólskumælandi gesti.
„Þessi vinna hefur vakið mikla athygli í Póllandi, og höfum við komið á samstarfi við önnur söfn, skóla, leikhús og aðrar menningarstofnanir ásamt því að fá langt innslag í svæðis-og ríkissjónvarpi Póllands,“ segir í tilkynningu frá safninu.
„Safnið leggur áherslu á að dagskrá þess sé fyrir alla óháð uppruna, efnahag, kynja eða annars, og hlökkum við til að taka á móti nýjum jafnt sem reyndari Íslendingum.“