Hráefni:
- 1 msk ólívuolía
- 2 msk smjör
- 5 stórir laukar, skornir í þunnar sneiðar
- 1 tsk salt (meira eftir smekk)
- 2 msk hveiti
- 3 hvítlauksgeirar, rifnir niður
- 1 dl þurrt hvítvín
- 1 1/2 líter nautasoð
- 1 tsk ferskt timjan
- svartur pipar
- 1 msk worcheshire sósa
- 1 lárviðarlauf
Hvítlauks/ostabrauð:
- 1 baquette brauð skorið í sneiðar
- 1 msk smjör
- hvítlauksduft
- 200 gr cheddar (eða annar bragðmikill ostur) rifinn gróft niður
Aðferð:
1. Hitið ólívuolíu og smjör í stórum potti. Steikið laukinn og kryddið til með salti. Látið laukinn malla í smjörinu þar til hann verður karamelliseraður og hefur tekið á sig fallega gylltan lit. Hrærið reglulega í lauknum, þetta tekur um 30 mín.
2. Þegar laukurinn er orðinn mjúkur og gylltur er hveitinu hrært saman við ásamt hvítlauk. Steikið áfram í um 2 mín.
3. Hellið þá hvítvíninu útí og hrærið saman við (gott er að nota viðarsleif og skafa vel úr botninum á meðan hrært er). Næst fer nautasoðið saman við ásamt timjan, svörtum pipar, worcheshire sósu og lárviðarlaufi. Látið þetta malla í 30 mín.
4. Þegar súpan hefur mallað í 30 mín er lárviðarlaufið veitt upp úr. Kryddið til með salti og pipar.
5. Hitið ofninn í 200 gráður og setjið bökunarpappír á ofnplötu. Raðið brauðsneiðunum á plötuna, smyrjið með smjöri. Kryddið með hvítlauksdufti og toppið með rifna ostinum. Glóðið brauðið næst í ofninum þar til osturinn verður fallega gylltur.
6. Skammtið súpunni í skálar og toppið hverja skál með einni til tveim ostabrauðsneiðum (fer eftir stærðinni á brauðinu og skálunum ). Berið fram strax.